144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er hægt að flytja sömu ræðuna varðandi Háskólann á Hólum og um Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Þarna hefur ekki verið mótuð nein stefna eða framtíðarsýn hvað varðar skólann. Ég verð að viðurkenna að þegar hæstv. menntamálaráðherra kemur hér og segir að það sé verið að vinna að undirbúningi og það standi til o.s.frv. þá biðum við í rúmt ár eftir hvítbók en það er ekkert úr henni í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er verið að gera allt aðra hluti en stendur þar.

Það er það sem veldur áhyggjum hjá mér, að við séum hægt og bítandi að leggja niður skólastarf á ákveðnum svæðum eða í ákveðnum stofnunum með skerðingu á fjárveitingum án þess að nokkur stefna hafi verið mótuð, og allra síst þannig að samstaða sé um þá stefnu sem þarf að vera á bak við svona skóla sem hér er verið að fjalla um.

Hér er sett inn viðhald fasteigna sem nýtist örugglega mjög vel á Hólastað en það er undirbúningur undir hestamannamót. Það er stærsta fjárveitingin. Það er gott að menn (Forseti hringir.) skuli velja að fara með það inn á þetta svæði en það gagnast ekki háskólastarfseminni á Hólum eitt og sér.