144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er lagt til að gripið verði til aðgerða til að koma til móts við húsnæðisvanda Listaháskóla Íslands þar sem ekkert hefur gerst. Hafin var vinna við greiningu á framtíðarhúsnæðiskostum og hæstv. ráðherra upplýsti þingið um það í fyrra að 4 milljónir skorti til að ljúka þeirri greiningu. Einu merkin sem við sjáum hins vegar í fjárlagafrumvarpinu í þessu máli eru að fellt er niður tímabundið húsnæðisframlag og ekkert sett í það að ljúka greiningunni.

Hins vegar verður það að segjast að Listaháskólinn kemur ekkert sérlega vel út úr þessum fjárlögum. Þetta er skóli sem er á hrakhólum og það er þess vegna okkar tillaga að fjármunir renni í hann. Við erum líka með aðra tillögu sem lýtur að því að efla samstarfsskólana með því að veita áfram fjármuni til þess þarfa verkefnis sem skólarnir hafa mjög óskað eftir. Það er nú eitt af því sem var gert á síðasta kjörtímabili þó að hæstv. ráðherra virðist mjög í mun að benda þangað til að draga athyglina frá eigin vandamálum, til að mynda við að sameina háskóla þar sem ekkert virðist ganga eða reka hjá hæstv. ráðherra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)