144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um 8 milljónir sem eiga að renna til Fisktækniskóla Íslands í Grindavík. Í fjárlagafrumvarpinu sjálfu eru 15 milljónir einnig til nýjunga í skólastarfi og gert er ráð fyrir að Fisktækniskóli Íslands í Grindavík verði með í þeim verkefnum. En þar er líka gert ráð fyrir að rekstrarfé til skólans sé skorið niður um 20 millj. kr. og við fáum ekki að vita af því hvernig framtíð skólans á að vera því að enginn þjónustusamningur er gerður við hann af hálfu menntamálaráðuneytisins.

Ég á erfitt með að átta mig á stefnu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra varðandi þennan skóla. Það er erfitt að lesa í það þegar með annarri hendinni eru gefnir fjármunir til nýjunga í skólastarfi sem skólinn á að bera uppi og með hinni er rekstrarfé tekið til baka.