144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:14]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hjá hv. þingmönnum sem töluðu á undan mér er þetta gert til þess að styrkja framhaldsskólana. Ég get í sjálfu sér alveg verið sammála því að það megi skoða framhaldsskólakerfið og stytta nám og gera það skilvirkara, en það á að gera í samráði við alla og ekki síst þegar ríkisstjórnin lagði ríka áherslu á það í stefnuyfirlýsingu sinni, sem er nú fallegt plagg eins og ég hef sagt oft áður, að þetta ætti að gera með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Hún segir líka að fjölbreytileiki í skólastarfi sé lykill að kraftmiklu og skapandi samfélagi. Hún segir líka að áhersla verði lögð á samráð við hagsmunaaðila þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi ríkisins um skipulag náms og kennslu. Þetta hefur alls ekki átt sér stað og þess vegna er alveg ótrúlegt hvernig ríkisstjórnin kemur fram við nemendur 25 ára og eldri í framhaldsskólakerfinu, ekki síst í ljósi þess að hún leggur enga peninga í þá skóla sem hugsanlega gætu tekið við þessum nemendum.