144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Sú ákvörðun var tekin að hækka framlag á hvern nemanda úr því sem lægst fór, ef ég man rétt, á árinu 2012 á verðgildi ársins 2014, 890 þús. kr. í núna 1.090 þús. kr. Síðan liggur fyrir reglugerð sem skrifað var undir á árinu 2012 þar sem var kveðið á um í hvaða röð skuli innrita nemendur. Það er það sem þetta mál snýst um og það er vissulega alveg hárrétt að þetta framlag, 1.090 þús. kr., dugar þannig að þeir sem eru 25 ára og eldri og eru í bóknámi þurfa að leita annarra úrræða en þau úrræði eru til. Það er búið að auka fjárframlög til þeirra þátta úr 300 milljónum fyrir nokkrum árum upp í 1,4 milljarða. Hér var talað um að það þyrfti sérstakt lundarfar til þess að hafa þá stefnu að 25 ára og eldri ættu að fara annað en í framhaldsskólann í bóknám. Það er þá mjög svipað lundarfar og er til dæmis til grundvallar í Noregi þar sem sú regla er í heiðri höfð eða er notuð að 25 ára og eldri fara ekki í framhaldsskólann heldur í þau úrræði sem annars staðar eru í boði, svipað og til dæmis í Svíþjóð (Forseti hringir.) þar sem nákvæmlega sama fyrirkomulag er. Þegar talað er um sérstakt lundarfar í þessu efni ættu þeir kölluðu sig norræna velferðarstjórn þegar þeir sátu sjálfir í ríkisstjórn að hugleiða hvaða fyrirkomulag er í þeim löndum. (Gripið fram í.)