144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni höfum setið hjá við atkvæðagreiðslu um tillögur stjórnarmeirihlutans en teljum sérstaka ástæðu til að greiða atkvæði með þessari tillögu. Það var eitthvert furðulegasta efnisatriði þessa fjárlagafrumvarps að gert var ráð fyrir að engin framlög yrðu sett í vinnustaðanámssjóð sem hefur verið til mikilla bóta til að bæta stöðu verknáms í landinu og haft mikil jákvæð áhrif á nýliðun í iðnnáminu og möguleika fyrirtækja á því að taka nema í iðnnám.

Við viljum þakka einbeittum málflutningi okkar í stjórnarandstöðunni það að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur séð að sér og leggur nú 150 milljónir til þessa sjóðs. Í þakklætisskyni fyrir það og til að sýna þann góða samstarfsvilja sem við höfum hér í stjórnarandstöðunni með ríkisstjórninni um þessi þjóðþrifamál greiðum við atkvæði með þessari breytingu. (Gripið fram í: Í þakklætisskyni.)