144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér ber að hafa í huga að í fjárlögum eins og þau hafa verið afgreidd á undanförnum árum var um að ræða tímabundið fjárframlag til þessa sjóðs. Aftur á móti var sagt í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár að málefni þessa sjóðs væru til skoðunar. Ég vil nefna það að nú stendur yfir víðtækt samráð, undir forustu menntamálaráðuneytisins, um breytingar á iðn- og verknámi, þar sem koma að Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, ASÍ, BSRB, kennaraforustan og fleiri, til að móta tillögur um framtíðarfyrirkomulag í þessum málaflokki.

Það er vandamál sem hefur verið uppi lengi hjá okkur sem okkur hefur ekki tekist að leysa, óháð því úr hvaða flokkum menntamálaráðherrar hafa komið, að of lítill hluti ungmenna velur sér verknám að loknum grunnskóla. Ég vil gera tilraun til þess, á grundvelli víðtækrar sáttar og samstöðu, að gera hér þá bragarbót á. Það er ekki orðið til vegna hvatningarorða Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) eða annarra þingflokka, það er í samræmi við stefnu þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í: Settu þá meira í verknám.) [Kliður í þingsal.]