144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Svo segja menn að forsjónin geti ekki átt hlut að máli. Það eru einstök forréttindi að fá að vera fyrstur hér við þessa atkvæðagreiðslu. Ég vil benda á að á atkvæðagreiðsluskjalinu sjá menn að næst verða greidd atkvæði um tillögu ríkisstjórnarmeirihlutans um að auka útgjöld til Ríkisútvarpsins um rúmlega 181 millj. kr. frá því sem framlagið var á síðasta ári. Það er því rangt, sem stundum er sagt hér í umræðunni, að verið sé að skerða eða draga úr framlögum til Ríkisútvarpsins.

Hitt er aftur á móti, það er rétt að halda því til haga, að stjórn Ríkisútvarpsins hefur lýst yfir áhyggjum af þeirri þróun að fari útvarpsgjaldið niður í 16.400 kr. standi stofnunin frammi fyrir því að þurfa að gera breytingar á rekstri og kalla þá eftir leiðsögn frá þingi. Þar með er ekki verið að segja að sú niðurstaða sem hér fengist, gangi tillaga ríkisstjórnarmeirihlutans eftir, kalli á þá sömu niðurstöðu. Það er nauðsynlegt að halda því til haga í þessari umræðu því að ég hef heyrt að menn hafa farið svolítið rangt þar með.

Ég segi nei við þessari tillögu, virðulegi forseti, en vísa síðan til þeirrar tillögu sem atkvæði verða greidd um hér næst.