144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um þá tillögu minni hlutans að útvarpsgjald verði ekki lækkað, að það fái að haldast óbreytt frá árinu í ár. Hér er ekki verið að tala um auknar álögur á almenning í landinu heldur að fólk fái áfram að borga þetta gjald og það renni óskert til Ríkisútvarpsins. Við sjáum það ítrekað koma fram, til að mynda í skoðanakönnunum, að almenningur í landinu vill standa vörð um Ríkisútvarpið og hefur áhyggjur af stöðu Ríkisútvarpsins sem er ekki nema von miðað við málflutning ýmissa hv. þingmanna til að mynda sem hafa sett fjárveitingar til Ríkisútvarpsins í samhengi við umfjöllun um meinta pólitík í ýmsum dagskrárliðum Ríkisútvarpsins. Þessi umræða er fjarri öllu lagi og sýnir ákveðinn skilningsskort á nauðsyn og mikilvægi almannaútvarpsins fyrir hvert lýðræðissamfélag. Ég segi já við þessari tillögu.