144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sorglegt að sjá að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi geri ekkert með þá einróma samstöðu sem mótast hefur í stjórn Ríkisútvarpsins um leiðina áfram fyrir þá stofnun. Það er ekki öfundsvert hlutverk fyrir fulltrúa stjórnarflokkanna að sitja í umboði þessara flokka í stjórn Ríkisútvarpsins þegar þetta eru viðbrögðin við málaleitan allrar stjórnarinnar.

Það liggur fyrir að stjórn Ríkisútvarpsins telur ekki rekstrargrundvöll að óbreyttu fyrir stofnunina með þeim verkefnum sem henni eru falin í lögum. Stjórnarmeirihlutinn lítur fram hjá því. Nokkrir þingmenn meiri hlutans hafa á undanförnum vikum talað af nokkru viti um Ríkisútvarpið og af nokkurri tilfinningu um ágæti þess en þeir láta samt teyma sig hér út í þessar ófærur.

Þetta er sorgleg stund, virðulegi forseti, og það er dapurlegt að sjá að ríkisstjórnarmeirihlutinn ráði ekki við að byggja víðtæka samstöðu, þvert á alla flokka, um framtíð Ríkisútvarpsins í landinu.