144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að Ríkisútvarpið þurfi að draga mjög verulega úr þjónustu sinni ef Ríkisútvarpið fær ekki útvarpsgjaldið óskert og í því formi sem það hefur verið, 19.400 kr. Ég heyri engan rífast um það nema hv. 7. þm. Reykv. s. vegna þess að öll stjórnin er sammála um þetta, þar á meðal fulltrúar meiri hlutans sem eru í þó nokkrum meiri hluta. Sömuleiðis verður að segja að það er ótækt að Ríkisútvarpið sem á að stunda óháða fréttamennsku þurfi að koma hingað til Alþingis og betla pening til þess eins að vera starfhæft undir einhverjum skilyrðum. Það er algjörlega ótækt.

Síðast en ekki síst vil ég minna hv. þingheim á að íslenska tungan er minnihlutatungumál í heiminum og stenst ekki samkeppni við alþjóðlega veröld. Ef við ætlum að halda í þessa íslensku tungu okkar þá kostar það peninga. (Gripið fram í: Þvílík dómadagsspá.) Það kostar peninga og það kostar framleiðslu efnis (Forseti hringir.) eins og Ríkisútvarpið hefur staðið fyrir. Það er nauðsynlegt að við höldum Ríkisútvarpinu starfandi og það þarf fjármagn til þess.