144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:08]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Eins og komið hefur fram eru þetta hógværar tillögur en munu skipta sköpum fyrir þessa sjóði. Nú á að fara að hækka skatt á bækur sem þýðir að það verður að koma einhvern veginn til móts við höfunda. Auðvitað þyrfti að koma til móts við útgefendur, það er mikil hætta á að það verði hnignun í menningarlífi Íslands ef ekki verður gefið meira í til að tryggja að skapandi greinar geti haldið áfram að vera jafn mikilvægur burðarliður í þessu samfélagi. En það virðist sem svo að það sé einhvern veginn ekki skilningur á því þrátt fyrir að komið hafi mjög ítarleg og góð skýrsla um þau hagrænu áhrif sem skapandi greinar hafa í samfélaginu.

Mér sýnist á öllu að meiri hlutinn ætli ekki að verða við neinum af þeim tillögum sem við í minni hlutanum komum okkur saman um að leggja fram. (Forseti hringir.) Mér finnst það miður og gef því þessum fjárlögum falleinkunn.