144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er lagt til að aukið sé við fjármuni til tiltekinna sjóða og einnig óperunnar og listahátíðar sem ég tel að sé mikið gagn að. Ég vil þó einnig minna á að í fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram var einnig gert ráð fyrir hækkun frá því sem verið hafði til þessara mála frá síðasta fjárlagafrumvarpi. Ég vil sérstaklega benda á Bókasafnssjóð höfunda sem var við framlagningu síðasta fjárlagafrumvarps 22 millj. kr. en verður nú 45 millj. kr., gangi þetta eftir og verði að lögum. Það er veruleg aukning á milli ára og skiptir máli því að hér er um að ræða réttlátt og sanngjarnt endurgjald til höfunda fyrir útlán á bókum þeirra. Jafnframt held ég að það sé ágætur samhljómur miðað við þá umræðu sem hér var á undan um liði frá stjórnarandstöðunni, að það er nauðsynlegt að auka jafnt og þétt við fjárframlög til þessara þátta. Þetta eru vissulega ekki háar fjárhæðir en þær skila sér til samfélags okkar og eru mikilvægar (Forseti hringir.) og það er ekki stór munur hér á tillögugerð meiri hlutans og minni hlutans.