144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að hrósa allsherjar- og menntamálanefnd. Á síðasta kjörtímabili var lögunum um heiðurslaun listamanna breytt þannig að á listanum mátti hafa allt að 25 einstaklinga. Það fór svo að fyrrverandi ríkisstjórn braut eigin lög varðandi þetta því að á tímabili var búið að skipa svo marga að það voru 27 einstaklingar á listanum. Nú hefur skapast svigrúm upp á tvo einstaklinga og forustumenn allsherjar- og menntamálanefndar ákváðu að leggja ekki til nýja skipan. Í því felst ríkissparnaður en jafnframt hefur formaður nefndarinnar og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar auk minni hlutans, heyrist mér, ákveðið að endurskoða ferlið allt, hvernig þessum málum skuli vera háttað í framtíðinni og er afar gleðilegt að verið sé að skoða hvernig þessu verði best komið í framtíðinni.