144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það var ánægjulegt að sjá hvað náðist góð samstaða um tillögu til ýmissa æskulýðsmála og æskulýðssamtaka. Ég vildi nota tækifærið, það eru mörg góð samtök í þriðja geiranum, og segja eins og er að ég tel það eitt af verkefnum okkar að hafa skýrari ramma hvað þetta varðar, ekki aðeins varðandi fjárveitingar heldur ekki síður að við breytum því fyrirkomulagi sem er til staðar í dag meira í samræmi við það sem gerist í nágrannalöndunum, þannig að þeir einstaklingar sem vilja styðja viðkomandi samtök fái að njóta þess svipað og með fyrirtækin. Það fyrirkomulag þekkist á Norðurlöndunum og í Bretlandi og ég held að við eigum að feta þá leið líka, því að þriðji geirinn er algjörlega vanmetið fyrirbæri á Íslandi og vinnur gríðarlega góð störf í bæði heilbrigðisþjónustunni og ýmsum velferðarmálum.