144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um sambærilega liði og var verið að greiða atkvæði um áðan þegar Oddný Harðardóttir fór yfir að ekki væri verið að fylgja einhverri betrun í fjárlagagerðinni. Ég hafna því, hér erum við sitt á hvað að greiða atkvæði um tillögur frá meiri hlutanum og minni hlutanum og ef það á að vera betrun hlýtur það að ná yfir alla þingmenn. Þó að farið hafi verið af stað með ákveðið starf 2012 og náð einhverju samkomulagi um að færa hina svokölluðu potta út úr fjárlaganefnd hefur það verið skilningur meiri hluta þeirrar fjárlaganefndar sem situr nú að það þurfi að vera svigrúm. Ég ítreka það, virðulegi forseti, og tek fram að starf fjárlaganefndar á haustin í fjárlagagerðinni og þar til frumvarpið er orðið að lögum felst í því að fá til sín gesti, fulltrúa sveitarfélaganna hringinn í kringum landið, hlusta á þær umkvartanir og tillögur um bætur sem þeir aðilar hafa fram að færa, sama hvar í flokki viðkomandi aðilar standa. Ég hafna því þessum málflutningi frá minni hlutanum (Forseti hringir.) sem kemur hér fram undir liðnum yfir ýmsan kostnað.