144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um breytingartillögu um fjárveitingu til að gera flutning Fiskistofu til Akureyrar mögulegan. Þessa fjárheimild er ómögulegt að styðja enda er hér verið að byrja á aftasta endanum í þessu máli. Ríkisstjórnin er þegar komin í vandræði með boðaðan flutning á Fiskistofu sem er í fullkomnu uppnámi. Starfsmenn samþykkja verkefnið ekki. Fyrir liggur að umboðsmaður Alþingis hefur hafið rannsókn á valdníðslu ráðherrans með því að taka ákvörðunina án þess að hafa til þess lagaheimild. Og það að láta sér detta í hug að leggja hér til á sama tíma fjárlagaheimild til flutnings sem er fullkomlega löglaus eins og mál standa og í fullkomnu faglegu uppnámi er fráleitt.