144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að leggja til fjármuni, 130 milljónir, til þess að flytja Fiskistofu til Akureyrar. Það liggur ekkert fyrir um lagagrundvöll þess að framkvæma þetta með þeim hætti sem hæstv. ráðherra ætlar sér. Það er með ólíkindum að menn ætli að þjösnast áfram með þetta mál. Eins og hefur komið fram er það í skoðun hjá umboðsmanni Alþingis, þ.e. hvort þessi ákvörðun hafi verið byggð á lögum. Framkoma við starfsfólk er með ólíkindum. Starfsfólk hefur verið að reyna að ná sambandi við ráðherra til að ræða þessi mál en hann hefur ekki getað veitt því áheyrn enn þá eftir því sem ég best veit.

Ég er hlynnt því að við stuðlum að uppbyggingu opinberra starfa um landið en það er ekki sama hvernig það er gert. Þetta er ruddaleg framkoma gagnvart bæði starfsfólki og þessari stofnun. Þetta setur ljótan svip á það að stuðla að uppbyggingu starfa úti á landi. Þetta er ljótt fordæmi. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)