144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ef ég skil rétt erum við að greiða hér atkvæði um að framlag samkvæmt tillögum meiri hlutans í sóknaráætlanir rausnist þó upp í 102 millj. kr. á næsta ári eftir að ríkisstjórnin hefur tvö ár í röð lagt fram frumvarp til fjárlaga með 15 millj. kr. í verkefnið sem er ótrúleg framganga í ljósi þess viðamikla starfs sem unnið hafði verið að því að byggja upp fyrirkomulagið í því metnaðarfulla verkefni sem kallast sóknaráætlanir landshluta. Verkefnið felst í fyrsta lagi í því að færa völd og fjármuni út til ákvörðunar á svæðunum, í landshlutunum, og um leið eflist samstarf sveitarfélaganna við það verkefni, í öðru lagi að einfalda stjórnsýsluna og samskiptin við ríkisvaldið með því að setja á sameiginlega stýrinefnd í stað þess að menn þurfi að eltast við mörg ráðuneyti um sín mál og í þriðja lagi, og ekki síst, virkjaði þetta samtakamátt svæðanna með íbúaþingum og vinnu við að forgangsraða verkefnum.

Þetta eru dapurlega litlir fjármuni, jafnvel þótt 100 milljónir séu betri en ekki neitt, í ljósi þess hversu viðamikið verkefnið er og mikil vinna (Forseti hringir.) hefur verið lögð í það af hálfu heimamanna. Ég vona að þetta sé í síðasta skiptið sem við sjáum ríkisstjórn (Forseti hringir.) gefa þessu langt nef. Við verðum að tala um miklu hærri fjárhæðir á næsta (Forseti hringir.) ári.