144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ráðleysi ríkisstjórnarinnar í glímunni við það verkefni að byggja upp ferðamannastaði er með eindæmum. Fulltrúar greinarinnar hafa komið á fund efnahags- og viðskiptanefndar og lýst mikilvægi þess að lagt verði fé úr ríkissjóði í uppbygginguna nú vegna þess að jafnvel þó að draumsýn hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra yrði að veruleika með samþykkt á vorþingi á fráleitu frumvarpi hennar um reisupassa og draumsýn hennar um náttúruvarðliðaherdeildir úti um allt land yrði að veruleika mun ekki safnast í þann sjóð alvörufé, fullnægjandi fé, fyrr en á árinu 2017. Það verður fyrst sumarið 2017 sem verður hægt að framkvæma til fulls samkvæmt þeirri óskynsamlegu hugmynd.

Ríkisstjórnin er algjörlega að klúðra þessu máli. Hún ræður ekki við að leggja gjöld á greinina til að byggja upp ferðaþjónustuna. Eina lausnin er að leggja á almenning gjöld (Forseti hringir.) eins og alltaf áður en ekki á greinina sjálfa.