144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því — það hefur auðvitað verið í umræðunni og ég ræddi það þegar lögin voru sett á síðasta þingi — að efasemdir eru um eitt og annað í þessu sambandi. Það hefur nú þegar komið í ljós að ágreiningur er um staðsetningu embætta og það var eitt af því sem ég ræddi við fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra ekki fyrir svo löngu. Þá var þetta allt slétt og fellt og í góðum jarðvegi. Það reynist ekki endilega vera svo.

Ef fjárveitingar nægja ekki, þær sem hér eru lagðar til, til að reka embættin er það áhyggjuefni. Því hefur verið lýst, meðal annars með lögregluna á Austurlandi og varðandi Höfn í Hornafirði, að embættið á Austurlandi telur að ef þetta verður fært dugi það fjármagn sem þar er undir ekki til. Þetta er ekki eini staðurinn þar sem þetta hefur komið fram þannig að ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að skoða betur áður en af þessu nýja fyrirkomulagi verður.