144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þau gjöld sem ríkisstjórnin treystir sér ekki til að leggja á útgerðina leggur hún á sjúklinga. Aukin kostnaðarhlutdeild fólks í heilbrigðiskerfinu er upp á 1,9 milljarða eða rétt innan við það sem lagt var til hér áðan að veiðigjaldið mundi hækka um og menn felldu.

Kostnaðarhlutdeild sjúklinga er komin að hættumörkum, erlendur samanburður sýnir að hér eru allt of margir sem treysta sér ekki til að sækja heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Í góðu samfélagi treystir fólk sér til að leita læknis þegar það þarf þess. Hér er lagt til að við drögum úr sköttum á sjúklinga og ég hvet stjórnarliða til að styðja þá tillögu.