144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að þetta er mikið áhyggjuefni. Kannanir og rannsóknir eru farnar að sýna að tekjulitlir einstaklingar í okkar samfélagi eru farnir að veigra sér við að leita sér læknisþjónustu út af kostnaði. Ég er þeirrar skoðunar og við í Bjartri framtíð höfum talað á þeim nótum að það sé mjög nauðsynlegt að endurskoða greiðsluþátttökukerfið.

Ég held að kostnaðarþátttaka sjúklinga verði alltaf einhver en hún verður að vera sanngjörn. Hún er það ekki núna. Það hvernig hún hefur aukist og í ofanálag er hún ekki heldur sanngjörn — þetta er stjórnlaust. Það þarf að fara í saumana á þessu og gera þetta réttlátt. Við þurfum algjörlega að snúa af þeirri braut að kostnaðarþátttakan hafi þau áhrif að tekjulitlir hópar leiti sér ekki læknisþjónustu.