144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Greiðsluþátttaka sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi er mjög flókið fyrirbæri, samanber þá vinnu sem undanfarin ár hefur verið lögð í að reyna að einfalda það kerfi og forða þeim sem hæstan bera kostnaðinn frá þeirri gríðarlegu gjaldtöku sem núverandi kerfi leggur á þetta sama fólk. Sú vinna stendur yfir undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég vænti þess að við munum á nýju ári fá tillögu nefndarinnar að breytingum á þessu fyrirkomulagi. Þegar það er hins vegar fullyrt að hér hafi verið lögð gjöld á sjúklinga upp á hátt í 2 milljarða á þessu ári er það rangt. Það er vissulega rétt að það getur verið að samanlagðar gjaldskrárhækkanir hafi numið um 600 millj. kr. eins og kom fram í máli hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur hér áðan en á móti lækkuðu gjöld á sjúklinga um milljarð í sérgreinasamningum þannig að nettótala af þessu ætti þá að vera mínus 400 milljónir. Ég minni einnig á að lækkun á virðisaukaskatti lækkar gjöld í lyfjum sjúklinga og ég minni einnig á að í tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir þessi fjárlög er gert ráð fyrir 150 millj. kr. sérstakri greiðslu (Forseti hringir.) til lækkunar á þátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði.