144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Staða örorkulífeyrisþega er orðin býsna alvarleg en á síðustu árum hafa heildartekjur þeirra dregist saman um 15%. Þeir hækka minna á hverju ári til viðbótar í lífeyri sínum en aðrir í launum. Nú er verið að draga í land með þær hækkanir sem þeir áttu þó að fá í fjárlagafrumvarpinu eins og það kom hér inn í haust. Hér eru lagðar til 640 milljónir til þess að hækka frítekjumörk í almannatryggingakerfinu. Allir stjórnmálaflokkar á Alþingi hafa lagt á það áherslu að draga úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu enda geta þær því miður búið til það sem verður ekki kallað annað en skipulögð fátækt þar sem engu máli skiptir hver sjálfsbjargarviðleitni fólks er. Ef það reynir að bjarga sér sjálft er það bara skert á móti. Ég hvet stjórnarliða til að styðja tillöguna.