144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ég heyrði rétt þegar hæstv. fjármálaráðherra fullyrti áðan að framlög til Landspítalans hefðu aldrei verið meiri. Ég hlýt að hafa heyrt vitlaust en ég heyrði þetta þó svona. Þetta er ekki rétt, a.m.k. ekki samkvæmt mínum upplýsingum. Samkvæmt mínum upplýsingum vantar Landspítalann 8–10% til að vera á sama staða að raunvirði í framlögum miðað við fjárlög 2008, fyrir hrun. Mér finnst svolítið alvarlegt ef menn halda að milljarður í aukningu til Landspítalans sé einhvern veginn nóg, að þá séum við komin með Landspítalann á sama stað. Það nægir upp í hallann á yfirstandandi ári, fjárþörfin er miklu meiri á næsta ári.

Ég vek athygli á því hvað þessi tillaga okkar í minni hlutanum er hófsöm. Við erum í raun bara að segja: Ókei, setjum þennan milljarð en sjáum líka aðeins fram í tímann. Það verður kostnaður vegna læknaverkfallsins, bætum hann upp. Það er augljóst að (Forseti hringir.) það þarf að fara í ákveðið viðhald, gerum það og bætum ástandið í barna- og unglingageðheilsumálum.