144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það verður aldrei nóg af fjármagni til heilbrigðismála. Það hefur aldrei nokkurn tímann neins staðar í heiminum verið neinn sá heilbrigðisráðherra sem hefur haft of mikið af fjármunum til heilbrigðismála. Þannig verður það aldrei. (Gripið fram í.) Sumir treysta sér ekki til að styðja forgangsröðun í þágu heilbrigðismála. Það er gert með því að taka niður liði annars staðar og setja í heilbrigðismálin. Það er það sem þessi ríkisstjórn hefur gert. (Gripið fram í.) Það er búið að hækka hér núna um 20% til Landspítalans, 42% (Gripið fram í.) til sjúkra … (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur orðið.)

… 42% til einstakra liða eins og sjúkraþjálfunar og tannlækninga. Heildarhlutfall í heilbrigðismálum hefur hækkað og allir hv. þingmenn nema einn treysta sér til að styðja þá forgangsröðun sem birtist (Gripið fram í.) í þessu. Ef allir hér sitja hjá verður þessi tillaga ekki samþykkt. (Gripið fram í: Ykkar tillaga.) Og með því verða menn að lifa sem treysta sér ekki til að greiða (Gripið fram í.) atkvæði með 1 milljarði í Landspítalann, virðulegi forseti.