144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefði verið óskandi að sjá á síðasta kjörtímabili þann brennandi eldmóð sem þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna hafa fyrir heilbrigðismálum á þessu kjörtímabili. Hér koma þeir fram með tillögu sem raunverulega yfirbýður tillögu ríkisstjórnarflokkanna sem mér finnst ekki sæmandi. [Hlátur í þingsal.] Það er mjög ánægjulegt að sú ríkisstjórn sem nú situr og hefur einungis verið við völd í eitt og hálft ár er ekki einungis búin að bæta það tjón sem unnið var á Landspítalanum á síðasta kjörtímabili — það var farið í niðurskurð á Landspítalanum upp á rúmlega 20% á síðasta kjörtímabili. Nú eru þessir sömu þingmenn æfir yfir því að þessi ríkisstjórn er búin að setja svo mikið fé í Landspítalann að annað eins þekkist ekki í Íslandssögunni.

Ég óska Íslendingum og þeim sem búa hér í þessu landi til hamingju með þessa forgangsröðun. Það er sorglegt að sjá hvernig stjórnarandstaðan reynir að snúa út úr þessu mikilvæga (Forseti hringir.) málefni.