144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:12]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að standa í neinni pissukeppni við hv. þm. Árna Pál Árnason um hver var fyrstur með þetta eða hitt. Hins vegar er hér gerð tillaga um að 875 millj. kr. verði tímabundið varið til hönnunar á meðferðarkjarna vegna nýrra bygginga á lóð Landspítalans við Hringbraut og til framkvæmda við byggingu á nýju sjúkrahóteli. Þetta framlag kemur til viðbótar 70 millj. kr. framlagi sem er til staðar í frumvarpinu til að ljúka við hönnun á nýju sjúkrahóteli. Heildarkostnaður aðalbygginga og annarra meginframkvæmda að meðtöldum tækjakaupum en að frátöldum fjármagnskostnaði er áætlaður um 77 milljarðar kr. Það má segja að þessi tillaga sé mikilvægt skref í frekari uppbyggingu Landspítalans og ber að fagna henni.