144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:24]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir það aukafjármagn sem kemur hér með þessari tillögu inn í Vinnumálastofnun. Það er mjög mikilvægt að Vinnumálastofnun geti sinnt sínum miklu og mikilvægu verkefnum, ekki hvað síst þar sem við vorum áðan að ræða um málefni fatlaðs fólks. Vinnumálastofnun er sú stofnun sem ég sé fyrir mér að eigi að sinna atvinnumálum allra, líka fatlaðs fólks. Hún hefur einmitt tekið þau mál fastari tökum núna með nýlegu verkefni sem hún kynnti þar sem hún hvetur alla til að hafa samband og koma á framfæri störfum fyrir fólk með skerta starfsgetu, auk þess sem hér liggur fyrir frumvarp um það að færa vinnusamninga öryrkja yfir til Vinnumálastofnunar þannig að það sé þá þar undir líka. Ég vil líka nefna það sem snýr að tillögu 84 og benda á að þar undir er aukafjármagn inn í framkvæmdaáætlunina sjálfa um málefni fatlaðs fólks, um 50 milljónir sem verið er að bæta þar inn í hvað það varðar. (Forseti hringir.) Það verða mörg spennandi verkefni sem þingið mun fá tækifæri til að fjalla um.