144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er litlu að bæta við atkvæðaskýringu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í að lýsa þeirri erfiðu stöðu sem Íbúðalánasjóður er í og satt að segja alveg ótrúlegt að heyra þetta af vörum stjórnarþingmanns. Ráðleysi ríkisstjórnarmeirihlutans í stefnumörkun fyrir Íbúðalánasjóð er orðið alvarlegt vandamál. (Gripið fram í.) Hér er verið að leggja (Gripið fram í.) fjármuni inn vegna (Gripið fram í.)— er hægt að fá hljóð í salinn? (Gripið fram í.)

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í salnum svo hægt sé að greiða fyrir þessum atkvæðagreiðslum.) [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

Hér er verið að leggja viðbótarframlag inn í Íbúðalánasjóð vegna skuldaniðurfellingarinnar því að það var aldrei úthugsað í henni hvaða áhrif hún hefði á Íbúðalánasjóð. Hún mun valda viðvarandi og vaxandi vanda hjá sjóðnum á næstu missirum vegna aukinna uppgreiðslna. Það kemur til viðbótar þeim staðreyndum sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson rakti hér áðan um að framtíðarviðskiptastefna sjóðsins hefði ekki verið mörkuð og ekki verið útfærð. (Forseti hringir.) Það er því verið að reka þetta sem (Forseti hringir.) tapsfyrirtæki frá degi til dags, (Forseti hringir.) frá hendinni til munnsins án nokkurrar (Forseti hringir.) stefnumörkunar af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson rakti (Forseti hringir.) það ágætlega áðan. (Gripið fram í.)