144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:53]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að fagna þessari tillögu að aukningu. Miðað við fjárlög síðustu ríkisstjórnar er verið að auka hér framlög til skattrannsóknarstjóra og reksturs embættisins um ríflega 17%, eða 12% að raunvirði. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að standa þurfi vörð um þessa starfsemi og þetta embætti. Samkvæmt skýrslum sem komu út 2004 er talið að það sé töluvert mikið um undanskot frá skatti og hugsanlega miðað við að hátt í 10% af heildarskatttekjum renni ekki rétta leið geti það þá orðið hátt í 60 milljarðar sem þessi stofnun sækir. Mér skilst að hún hafi að meðaltali sótt á bilinu 4–5 milljarða á ári og kostnaður hennar er vel innan við 300 milljónir þannig að ég mun mæla með því að við stöndum vörð um þessa starfsemi og höldum áfram að efla hana á komandi árum.