144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um breytingartillögu okkar í stjórnarandstöðunni sem gerir ráð fyrir að áfram verði greitt úr ríkissjóði framlag til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða. Þetta er ein af þeim undarlegu tillögum sem koma í hnapp frá ríkisstjórninni og fela allar í sér brot á samningsbundnum réttindum launamanna, hvort sem það er skerðingin á samningsbundnu framlagi til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, réttindum atvinnulausra til atvinnuleysisbóta í þrjú ár eins og greidd voru um atkvæði áðan eða þetta. Hér er um það að ræða í rauninni að erfiðisvinnufólk í landinu sem verður frekar öryrkjar en aðrir mun þurfa að sæta því að vera á lægri lífeyri en aðrir. Þetta er ótrúlega andstyggileg tillaga af hálfu ríkisvaldsins þegar haft er í huga að ríkið tryggir nú þegar lífeyrisréttindi sinna eigin starfsmanna. Hér er sem sagt bein ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að brjóta kjarasamningsbundna (Forseti hringir.) þríhliða samninga á vinnumarkaði og skerða lífeyrisréttindi sjómanna og annars erfiðisvinnufólks.