144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er sannarlega fylgjandi því að hækka barnabætur enda hafa greiningar sýnt að það eru barnafjölskyldur sem eiga í mestum greiðsluvanda. Fátækt barna á Íslandi er skammarlega mikil og auðvitað þurfum við að hækka barnabætur. En 1 milljarður og upp í upphæð sem nær ekki einu sinni raunvirði sem var hér fyrir örfáum árum, það er bara — mér er ekki hlátur í huga en samt sem áður er það hlægilegt að bjóða fólki upp á það að segja að 1 milljarður í barnabætur til viðbótar eigi að vera mótvægisaðgerð á meðan verið er að hækka nauðsynjar, hækka matarskatt á almenning og skerða barnabætur áður en lágmarkslaunum er náð. Skerðingin byrjar við 200 þús. kr.

Virðulegi forseti. Það er ekki mikil reisn yfir þessari aðgerð hæstv. ríkisstjórnar frekar en mörgum öðrum sem (Forseti hringir.) við höfum fjallað um í dag.