144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hér eru stórar upphæðir að fara úr ríkissjóði, upphæðir sem hefði verið hægt að nota til þess að lækka skuldir ríkissjóðs og lækka þar með þennan gríðarlega háa reikning sem hv. þm. Pétur H. Blöndal fjallaði um áðan. Hér er peningur að fara í kosningaloforð hjá Framsóknarflokknum, fólk er að fara að fá niðurgreiðslu á lánum sínum þó að það eigi verðmætar eignir og þó að það þurfi enga hjálp við að greiða lán sín. (Gripið fram í.) Þetta er slæm ráðstöfun á opinberu fé, þetta er fullkomlega óábyrgt á tímum þegar við þurfum þessa peninga í annað. Þetta er ömurleg efnahagsaðgerð, það þurfti að gera ýmislegt fyrir heimilin í eftirleik hrunsins og það var gert. Skuldastaða heimilanna er komin niður fyrir 100% af landsframleiðslu, skuldir heimilanna nema 45% af (Forseti hringir.) eigum þeirra. Ég get ekki kallað þessa aðgerð og þá peninga sem núna streyma út úr ríkissjóði undir þessum fjárlagalið annað en bruðl.