144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það gladdi mig óendanlega þegar ég hélt að það ætti að kalla þennan breytingalið til baka því að ég ætlaði að gera verulegar athugasemdir við hann, en það fór í verra þegar í ljós kemur að hann er inni í frumvarpinu þannig að þess vegna er breytingin kölluð aftur. Ég tel að menn séu komnir út í ófæru með því að afgreiða svona orðaðar og galopnar heimildir af þessu tagi. Ég vek athygli á orðalaginu, „að selja óhentugar eða óhagkvæmar húseignir“, hvaða húseignir sem er, „utanríkisþjónustunnar erlendis og verja hluta söluverðs til að kaupa eða leigja hentugra húsnæði.“ Hvaða hluta? Er ekki ansi langt gengið að afgreiða svona galopna heimild til utanríkisþjónustunnar í þessum efnum í staðinn fyrir að tilgreina þær eignir sem hafa verið skoðaðar og búið er að ákveða að reyna að selja og endurráðstafa söluverðinu? Þetta gæti nákvæmlega eins orðast svona, herra forseti: Utanríkisþjónustan gerir það sem henni sýnist með eignir ríkisins á erlendri grund. Það getur ekki gengið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)