144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst það skjóta nokkuð skökku við þegar það sem helst var sögulegt við atkvæðagreiðsluna sem var að ljúka var að hér tókst stjórnarandstöðunni með miklum ræðuhöldum að efna til lengstu atkvæðagreiðslu líklega í þingsögunni. [Kliður í þingsal.] Herra forseti. Ef ég mætti ótruflaður fá að segja nokkur orð.(Gripið fram í.) Ef ég mætti ótruflaður fá að segja nokkur orð.

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð meðan hæstv. ráðherra talar.)

Það sem helst bar til tíðinda í dag var að hér var efnt til lengstu atkvæðagreiðslu líklega í þingsögunni og samtals um fjárlagafrumvarpið og með atkvæðagreiðslunni líklega efnt til lengstu umræðu. Nú er það svo að það er skaði að því að forsætisráðherra skyldi ekki hafa verið með okkur í dag en við vitum það líka öll sem erum hér að það er fyrst og fremst skaði fyrir þann sem missir af því að vera viðstaddur atkvæðagreiðslur, skaði fyrir hann sjálfan, en það virðist sem margir sem voru hér í atkvæðagreiðslunni líti svo á að þetta hafi verið sjálf umræðan. Það gegnir allt öðru máli um umræðuna.

Hér var atkvæðagreiðsla [Frammíköll í þingsal.] og það er tvennt ólíkt að sakna manna úr atkvæðagreiðslu eða umræðu en þessu hafa menn algerlega blandað saman, (Forseti hringir.) ef ég mætti fá að segja ótruflaður eitt eða tvö orð. (Gripið fram í: … tíma að ljúka.)

Herra forseti.

(Forseti (EKG): Hæstv. ráðherra fær að sjálfsögðu heimild til að ljúka sinni ræðu en hann hefur verið truflaður svo mikið undir þessari ræðu.)

(Gripið fram í.) Það sem stendur upp úr er þessi langa atkvæðagreiðsla og ég ætla að beina því til forsætisnefndar þingsins að taka það til alvarlegrar athugunar að fara nú að stytta atkvæðaskýringar niður í eins og um hálfa mínútu sem ég teldi vera hæfilegt í ljósi rúmlega tíu ára reynslu í þinginu.