144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Metið í umræðu við 2. umr. fjárlaga eiga núverandi ríkisstjórnarflokkar þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Tímalengd atkvæðagreiðslunnar er hér eins og raun ber vitni, eins og fram kom hjá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, fyrst og fremst vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra ræður ekki við að leggja fram fjárlagafrumvarp. Annað árið í röð forklúðraði hann fjárlagafrumvarpinu [Kliður í þingsal.] þannig að uppnámsástand [Kliður í þingsal.] var á Landspítalanum (Forseti hringir.) og þurfti að laga fjárlagafrumvarpið. (Forseti hringir.) Þess vegna voru margar breytingartillögur ... [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Hv. þingmaður er augljóslega að gera tilraun til að framlengja þessa umræðu.)

Nei, nei, virðulegi forseti. Má ég fá að klára ræðu mína? Vegna umræðunnar um fjarveru hæstv. forsætisráðherra þá beini ég hins vegar þeirri ósk til hæstv. forseta að hann grennslist fyrir um hvort fordæmi séu um að forsætisráðherra Íslands hafi ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjárlaga án gildra forfalla. Það er engin fjarvist skráð á Alþingi Íslendinga. Þetta snýst um virðingu fyrir löggjafarsamkomunni.