144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig langar aðeins að svara hæstv. fjármálaráðherra — að við þurftum að sitja hérna í sex klukkutíma að afgreiða þetta. Það er svo ofboðslega lítið, við erum búin að standa hérna í viku fram yfir miðnætti að ræða þetta mál og þá hafa stjórnarþingmenn og ráðherrar verið mjög sjaldséðir hrafnar í salnum. Við erum að ræða þetta mikilvæga forgangsmál þar sem engan veginn er verið að hlusta á landsmenn varðandi forgangsröðunina og hlusta á eigin kosningaloforð þannig að sjálfsögðu tökum við bara þann tíma sem þarf að taka. Og hei, það er læknaverkfall í landinu! (Gripið fram í: Nei.) [Kliður í þingsal.] Ha! Vissuð þið það? (Gripið fram í: Nei.) Það er læknaverkfall í landinu. Og hvernig er aftur vinnutíma lækna háttað? Og hvað gerist þegar þeir þurfa að hætta og vaktaálagið fer að lenda á þeim sem eftir sitja? Hvernig er vaktaálagið á læknum? Ég held að við ættum bara ekkert að vera að kvarta yfir því að sitja hérna í sex tíma. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)