144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:50]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta kærlega fyrir þolinmæðina og góð störf hér. Þetta er búin að vera löng atkvæðagreiðsla. Ég hef fylgst með umræðunni nú við 2. umr. fjárlaga og hef tekið eftir því að það vill verða svo um tíuleytið að kvöldi að fólk hefur farið hér upp í fundarstjórn. Ég hef talið það vera merki um að fólk væri orðið þreytt. Ég held að fólk sé hugsanlega svangt hérna líka, það er enn þá matur frammi í matsal og ég hvet fólk til að fara þangað, það er búið að vera að halda matnum heitum fyrir okkur.

Ég vil líka þakka öllum hér fyrir þátttökuna í atkvæðagreiðslunni. Það er líka gott að finna hvar við stöndum í raun nærri hvert öðru þegar kemur að fjárlögunum því að breytingartillögur minni hlutans voru 1,5% af heildarfjárlögunum. Segja má að við höfum fengið 9,8 í einkunn frá minni hlutanum og þegar ég var í grunnskóla þótti það ansi gott að fá næstum því 10 í einkunn.