144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

405. mál
[22:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég bað um orðið frekar en að fara í andsvar við hæstv. ráðherra því að ég átti í sjálfu sér ekkert vantalað við hann sérstaklega eða um það sem hann sagði um málið. Það eru örfá atriði sem ég vil aðeins taka fyrir.

Í fyrsta lagi fagna ég frumvarpinu og því að lagt er til að framlengja þessa löggjöf um fimm ár. En ég verð að segja, frú forseti, að mikið óskaplega hefur hæstv. fjármálaráðherra eða vinir mínir í ráðuneytinu litið seint á dagatalið. Það lifa rétt tæpar þrjár vikur þar til lögin falla úr gildi. Það getur varla hafa farið algjörlega fram hjá mönnum í fjármálaráðuneytinu að árið 2015 tæki við af árinu 2014. Það er auðvitað mjög sérstakt að við skulum vera að ræða framlengingu á löggjöf af þessu tagi, sem væntanlega engum hefur dottið í hug að mætti missa sín, örstuttu áður en lögin falla úr gildi. En hvað um það.

Aðalatriðið er að þessi löggjöf hefur gefist mjög vel og tvímælalaust skilað tilgangi sínum. Það er reyndar umhugsunarefni að heilt bankahrun skyldi þurfa og eitt stykki vinstri stjórn til að koma þessum lögum hér á eftir að búið var að tala um það í um það bil 15 ár, að Ísland yrði að búa nýsköpunarstarfi og rannsóknar- og þróunarstarfi hagstætt umhverfi eins og búið var að gera löngu áður í eiginlega öllum nálægum ríkjum.

Þetta hafði oft verið tekið upp í umræðum hér á þinginu og víðar en af einhverjum undarlegum ástæðum komst það ekki í verk fyrr en í miðju hruninu og í kreppunni. Þá gáfum við okkur þó tíma til að snara saman frumvarpi og leggja fram og það fékkst afgreitt. Það var að sjálfsögðu mjög brýnt, meðal annars vegna þess að menn sáu viss tækifæri og vissa möguleika í því að nýsköpunar- og þróunarstarf mundi blómstra með mátulegum stuðningi einmitt við þær aðstæður að mikil hreyfing komst á vinnumarkaðinn, talsvert af menntuðu fólki missti vinnu, ekki síst í bönkum, og fór að reyna fyrir sér og skapa sér störf og möguleika með því meðal annars að stofna sprotafyrirtæki og koma einhverri nýsköpun og þróun af stað.

Það ánægjulega var að strax á fyrsta ári, á árinu 2011, fór það fram úr björtustu vonum hve mikið var sótt um af verkefnum og hversu mikil útgjöld ríkisins urðu. Þau útgjöld voru rúmlega 600 millj. kr. Þar af voru endurgreiðslur að sjálfsögðu langstærsti hlutinn eða 578 millj. kr. Kunna ýmsir að sjá ofsjónum yfir þeim fjármunum. Þeir dreifast á um 65 aðila, eða gerðu þarna strax fyrsta árið, og að langmestu leyti var um að ræða tiltölulega lágar fjárhæðir eins og við sjáum ef við deilum fjölda fyrirtækja í þessa tölu að meðaltali. Það sýndi sig strax að þetta var gríðarlega góð innspýting inn á þennan akur og þau voru ófá fyrirtækin sem beinlínis sögðu, á árunum 2012–2013: Þetta reið baggamuninn. Ég fékk bréf frá fyrirtækjum sem sögðu: Við erum á lífi í dag vegna þess að við fengum beinlínis pening út úr kerfinu.

Eðli málsins samkvæmt eru fyrirtækin oft á fyrstu árum sínum ekki að skila neinum hagnaði og greiða þar af leiðandi ekki neinn tekjuskatt. Þá er það óendanlega dýrmætt að fá beinlínis fjármuni í hendur til að leggja út fyrir þeim kostnaði sem fyrirtækin hafa tekist á við.

Síðan hefur þetta þróast þannig, eins og sjá má á bls. 2 í greinargerðinni, að þetta er komið vel á annan milljarð króna, fjárhæðirnar hafa tæplega tvöfaldast á þessum fjórum árum og fyrirtækin eru orðin á annað hundrað, rannsóknar- og nýsköpunarfyrirtækin sem fá vottun hjá Rannís og eru gjaldgeng til þessa stuðnings.

Ég sagði stundum hér á árunum að þetta væru eiginlega einu útgjöld ríkisins sem gleddi mig virkilega að væru að aukast vegna þess að þetta væri ávísun á margföldun verðmæta í kjölfarið. Þegar þau fyrirtæki hefðu þróað vörur sínar eða afurðir, náð fluginu, fengi ríkið þessa peninga margfalt til baka. Ég held að leitun sé að betri fjárfestingu hjá ríkinu yfir höfuð en að fjárfesta í þessu. Á nýsköpunarþingum hafa verið sýnd dæmi um fyrirtæki sem kannski hafa fengið samtals 100–200 millj. kr. stuðning á vaxtarskeiði sínu í gegnum þetta endurgreiðslukerfi frá Nýsköpunarmiðstöð o.s.frv. en jafnvel innan fimm ára verið búin að borga það tífalt til baka, ef skatttekjur, launaskattar og annað slíkt, eru taldar með. Það þarf því ekki að sjá ofsjónum yfir því.

Hafandi sagt þetta verð ég að segja að ég hef efasemdir um að hækka gólfið jafn mikið og gert er einfaldlega vegna þess að kannski er þessi stuðningur hvergi dýrmætari en einmitt í minnstu fyrirtækjunum. Þau eru ekki að ráðast í stór eða kostnaðarsöm verkefni en geta þurft að kaupa sér að sérhæfða þekkingu í sambandi við rannsóknir og þróun á verkefnum og getur munað um hverja krónu í þeim efnum. Ég mæli því eindregin varnaðarorð gagnvart því að fara of ógætilega fram í þessum efnum. Ef við reiknum þetta upp til verðlags frá 2009, þegar verið var að undirbúa löggjöfina, þá er það sjálfsagt rétt að þetta eru rúmlega 1,5 millj. kr. í dag, kannski 1,7 millj. kr. Gott og vel 2 millj. kr. í gólf eða eitthvað slíkt væri á svipuðum slóðum og lagt var upp með en ég held að ég muni ekki treysta mér til að styðja hækkun á því sem verður mikið meira en það.

Langbest væri auðvitað að bæta í þetta kerfi. Um leið og ég segi að við þurfum að fara varlega gagnvart því að setja gólfið of hátt vegna litlu aðilanna þá liggur náttúrlega alveg fyrir hvað væri virkast að gera á hinum endanum, en það væri að hækka fjárhæðarmörkin. Með því værum við að láta stuðninginn elta verkefnin í stækkandi nýsköpunarfyrirtækjum dálítið lengra upp en er í dag. Vandinn er auðvitað sá að þessi stuðningur þynnist út og verður um það bil að engu þegar komið er upp í meðalstór fyrirtæki og hefur lítið vægi í rannsóknarkostnaði stórfyrirtækja eins og Össurar og Marels o.s.frv., eðli málsins samkvæmt, sem hleypur á milljörðum.

Frú forseti. Ég vildi láta þetta koma fram við umræðuna og mun að sjálfsögðu leggja mitt af mörkum til að greiða fyrir því að við náum að afgreiða frumvarpið og gera að lögum fyrir áramót. Það er mjög nauðsynlegt. Ég held að önnur atriði frumvarpsins þarfnist ekki umræðu, sjálfsögð ákvæði eins og þau að ríkisskattstjóri geti miðlað upplýsingum til Rannís og þar fram eftir götunum.