144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

dómstólar.

419. mál
[22:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998. Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði um dómstóla, sem kveða á um að fjöldi dómara í héraði skuli vera 43, verði framlengt um eitt ár, en heimildin á að falla niður um næstu áramót. Í árslok 2009 var gerð sú breyting á lögum um dómstóla að dómurum í héraði var fjölgað úr 38 í 43. Var þessi fjölgun dómara tímabundin að því leyti að eftir 1. janúar 2013 skyldi ekki ráðið í þær dómarastöður sem losnuðu þar til fjöldi dómara yrði aftur 38. Ástæða þessarar fjölgunar dómara var aukið álag á dómstólunum í kjölfar bankahrunsins. Þessi heimild hefur síðan verið framlengd, nú síðast til 1. janúar 2015.

Í kjölfar bankahrunsins var mótuð sú stefna að gera réttarvörslukerfinu kleift að takast á við afleiðingar þess. Í þeim tilgangi var meðal annars sett á fót embætti sérstaks saksóknara þann 1. febrúar 2009. Var því fyrirsjáanlegt að rekstur sakamála vegna efnahagsbrota mundi aukast mjög og að slík mál kynnu að verða bæði flókin og umfangsmikil, auk þess sem þeim mundi fylgja ýmis annars konar ágreiningur, svo sem um rannsóknaraðgerðir lögreglu. Þá hefur fjöldi einkamála sem rekinn er fyrir dómi jafnframt aukist og geta þau líkt og sakamálin verið umfangsmikil og erfið viðfangs. Nægir þar að nefna mál er varða slit fjármálafyrirtækja og lánamál einstaklinga og lögaðila. Var fjölgun dómara sem fyrr segir ætlað að bregðast við þessum aðstæðum.

Virðulegi forseti. Enn er mikið álag á héraðsdómstólunum. Hefur dómstólaráð tilkynnt ráðuneytinu að það leggi áherslu á að núverandi fjöldi héraðsdómara haldist óbreyttur til ársloka 2015. Samkvæmt upplýsingum frá Héraðsdómi Reykjavíkur er enn mikið álag á dómstólnum sem má að mestu rekja til mála sem komu til í kjölfar efnahagshrunsins. Einkum er um að ræða mál frá sérstökum saksóknara en einnig einkamál sem höfðuð hafa verið á hendur stjórnendum og starfsmönnum föllnu bankanna og öðrum fjármálastofnunum. Þá er bent á að mikil fjölgun hafi orðið á aðfararbeiðnum sem og málum er varða lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi eða vísitölu en þau mál sæta flýtimeðferð. Fjölgun hafi einnig orðið í öðrum málaflokkum sem sæta flýtimeðferð, svo sem barnaverndarmálum og ákvörðunum stjórnvalda í útlendingamálum.

Í júní 2013 skipaði þáverandi innanríkisráðherra nefnd til að semja frumvarp um svonefnt millidómstig. Er ráðgert að frumvarpsdrög hvað það varðar liggi fyrir innan skamms. Ljóst er að ef sett verður á fót þriðja dómstigið þarf að taka til skoðunar hversu margir dómarar eigi að vera á hverju dómstigi. Er því í frumvarpi þessu lagt til að fjöldi dómara í héraði verði áfram 43 fram til ársloka 2015.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.