144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

dómstólar.

419. mál
[22:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er enn töluvert mikið álag á Hæstarétti og raunar dómstólum landsins, eins og ég sagði í ræðu minni. Hæstiréttur hefur hins vegar gripið til þess bragðs að nýta sér varadómara. Hæstaréttardómarar sem hafa lokið störfum vegna aldurs hafa verið kallaðir inn í réttinn til þess að dæma í einstöku málum. Það hefur létt töluvert á Hæstarétti og hefur reynst vera skynsamleg ráðstöfun að nýta starfsþrek fyrrverandi dómara eins og þar hefur verið gert. Hæstiréttur hefur ekki farið fram á fjölgun dómara heldur farið þessa leið.

Varðandi millidómstig og mína skoðun á slíku þá eru umræður um millidómstig alls ekki nýjar af nálinni á vettvangi lögfræðinnar. Það hefur verið í umræðunni mjög lengi hvort ástæða sé til að breyta skipan dómsmála í landinu. Ég hef ekki séð þær tillögur enn þá sem nefndin er að vinna og treysti mér ekki til þess að leggja endanlegt mat á málið fyrr en þær koma fram. Ég get hins vegar sagt hv. þm. Helga Hjörvar að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það gæti verið æskilegt að gera slíkar breytingar án þess að ég vilji ganga lengra í því að þessu sinni að úttala mig um það hvernig þær mundu líta nákvæmlega út.

Ákveði ráðuneytið að slíkt sé skynsamlegt þá yrði það að sjálfsögðu með þeim hætti að því fylgdu efndir og það yrði að veruleika. Það er ekki til neins að takast á við ný verkefni ef þeim fylgir ekki fé. Fyrst þarf auðvitað að meta hvort þetta sé æskilegt og hvort tillagan sé skynsamleg, síðan þegar það liggur fyrir er hægt að taka næsta skref og athuga hvernig slíku yrði komið í framkvæmd.