144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

dómstólar.

419. mál
[22:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get svo sannarlega tekið undir það með hv. þingmanni að við þurfum að búa vel að æðsta dómstól þjóðarinnar, Hæstarétti. Ég tel að þær fjárheimildir sem er nú að finna í fjárlagafrumvarpinu fullnægi því. Það hefur ekki verið um frekari óskir þaðan að ræða svo mér sé kunnugt um en ég hef á þeim örfáu dögum sem ég hef setið í stóli innanríkisráðherra kannað það. Það er hins vegar á stefnuskránni hjá mér síðar í vikunni að hitta forsvarsmenn Hæstaréttar og þá get ég í leiðinni fengið nánari upplýsingar um hvernig álaginu er háttað þar.

Hæstiréttur er að sjálfsögðu lykilstofnun í landinu. Það þarf að gæta vel að hag Hæstaréttar. Ég mun svo sannarlega gera það í störfum mínum í ráðuneytinu.