144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

dómstólar.

419. mál
[22:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir hlý orð í minn garð frá hv. þm. Róberti Marshall. Ég get sagt við hann og aðra þingmenn að ég hlakka til samstarfsins við þingmenn beggja vegna borðs, eins og hann komst að orði, að brýnum málum til hagsbóta fyrir þjóðina.

Varðandi það hvort þetta muni duga og hvort aftur þurfi að framlengja þá er vandasamt að vissu leyti að svara eins og ég gat um í minni ræðu. Ég nefndi millidómstigið og það hvort það muni komast á og klárast á komandi ári. Það mun auðvitað hafa töluvert áhrif um það hvernig þetta þróast. Engu að síður skulum við átta okkur á því að það tekur töluverðan tíma að koma slíku dómstigi á. Ég held að menn eigi að vara sig á því að halda að það gerist mjög hratt og það þarf að gefa sér tiltekinn tíma til að undirbúa slíkt og það þarf að fá til þess fé.

Ég verð nú að segja það hreint út að það er aldrei gaman að þurfa að koma með framlengingar á hlutum skamman tíma í senn, en ég taldi þó að í þessu tilviki væri skynsamlegast að hafa það ekki lengra. Það gefur mér þá ráðrúm til að fara rækilega yfir þetta mál á næsta ári og geta verið með raunhæfari áætlanir um það hvernig álagið er á dómstólunum. Við höfum ekki alveg getað séð það fyrir. Það er nú þannig með dómsmálin að þau vilja stundum taka lengri tíma en við kannski kjósum. Þannig að við töldum að þessu sinni að ekki væri heppilegt að biðja um lengri framlengingu. En ég treysti mér ekki til að lofa því hvernig þetta fer á næsta ári.