144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

dómstólar.

419. mál
[22:47]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að bjóða hæstv. innanríkisráðherra velkominn til starfa og hlakka til samstarfsins við hana.

Ég er nú ekki beint í andsvari heldur langar mig til að lýsa ánægju minni með að þetta ákvæði sé framlengt þar sem mikið álag er á dómstólum landsins. Þetta er mikilvægt vegna álagsins og þeirra fjölda mála er bíða, mála af ýmsum toga. Það má meðal annars nefna að enn eru einstaklingar að bíða úrlausna eða niðurstöðu dómstóla og bíða jafnvel eftir að mál þeirra séu tekin fyrir er varða gengistryggingu lána og mál sem eiga upptök sín að rekja til hrunsins. Jafnframt, eins og kannski flestir vita, þá er óvissa varðandi lögmæti verðtryggingar af ýmsum lánum. Þar eru nokkur mál sem taka þarf fyrir í byrjun á nýju ári eða ég tel að þau séu komin á dagskrá þá.

Það sem ég vildi bara segja með þessu er að mér finnst það gott skref að framlengja þetta. Ég tel mjög mikilvægt fyrir dómstóla landsins að halda í þann fjölda dómara sem nú þegar er til staðar til að geta eins fljótt og auðið er komist yfir þau verkefni sem bíða.