144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

almannavarnir o.fl.

412. mál
[23:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hér er um verulegar valdheimildir að ræða enda miðað við að um neyðarástand sé að ræða í landinu. Ég legg gríðarlega mikla áherslu á það að í þessu frumvarpi erum við að tala um meiri háttar náttúruhamfarir og þá getur þurft að bregðast mjög hratt við. Það er álit manna að það sé skynsamlegt að löggjöf sé fyrir hendi komi slík tilvik upp.

Að sjálfsögðu er það rétt hjá hv. þingmanni að Alþingi Íslendinga hefur brugðist hratt við þegar alvarlegir atburðir hafa orðið og ég á von á því að svo verði áfram. En engu að síður er það mat almannavarna og þeirra sem gerst þekkja að skynsamlegt sé að slík löggjöf sé fyrir hendi.

Að því sögðu vil ég segja það, hæstv. forseti, að þetta er að sjálfsögðu mál af því taginu að það þarf töluvert mikla umræðu og vandaða umfjöllun. Ég veit að sú umfjöllun er fram undan hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd og ég er að sjálfsögðu reiðubúin til þess á síðari stigum að koma þar að liði eins og ég mögulega get.