144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

almannavarnir o.fl.

412. mál
[23:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þúsund ár höfum við búið hér við nyrstu voga og gengið á móti okkar þrautum djörf og sterk og náð að ráða nokkuð vel fram úr þeim náttúruhamförum sem við glímum við með reglulegu millibili. Maður þarf því að skilja vel hvaða þörf er á þessari löggjöf umfram það sem við höfum haft vegna þess að getan til að bregðast við og rjúfa vegi, sé þess þörf, hefur verið til staðar og menn hafa ekki hikað við það.

Íslendingar hafa ekki legið á liði sínu, það þekki ég nú sem Vestmannaeyingur, þegar á þarf að halda, að grípa til þeirra ráðstafana sem grípa þarf til og eru þá kannski ekki mikið að horfa í lagabókstafinn meðan á því stendur. Mér finnst að menn þurfi að hafa það á bak við eyrað meðan þeir fjalla um þetta.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að þetta þarf mikla umræðu og reglugerðarheimildin — ég er sammála því líka. Það þarf að skoða það vandlega hvort það sé ekki hluti af löggjöfinni þannig að menn geti rætt það hér með opnum hætti og komist að sameiginlegri niðurstöðu.