144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

Fiskistofa o.fl.

417. mál
[23:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Fiskistofu og ýmsum öðrum lögum. Frumvarp þetta var unnið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpinu er meðal annars lagt til að sett verði gjaldskrárheimild í lög um Fiskistofu sem heimilar Fiskistofu að innheimta gjöld vegna veittrar þjónustu og eftirlits á grundvelli gjaldskrár. Meginmarkmið frumvarpsins eru þrjú talsins. Í fyrsta lagi er lagt til að öll gjaldtökuákvæði Fiskistofu sem er að finna víða í löggjöf verði færð á einn stað undir ein lög. Þannig er löggjöf sem lýtur að gjaldtökunni gerð gegnsærri og yfirsýn bætt.

Í öðru lagi er talin bót að gjaldskrárheimild í lögum um Fiskistofu í stað fastra fjárhæða gjalda í lögum. Með gjaldskrá má bregðast með skjótari hætti við breytingum á raunkostnaði enda skal fjárhæð gjalda ávallt endurspegla raunkostnað stofnunarinnar fyrir veitta þjónustu og eftirlit.

Í þriðja lagi þykir rétt að gjaldtökuheimildir Fiskistofu nái yfir öll tilvik vegna lögbundins eftirlits og þjónustu þar sem því verður komið við.

Meginefni frumvarpsins er að finna í 1. gr. þess en þar er ákvæði sem kveður á um heimild Fiskistofu til gjaldtöku á grundvelli gjaldskrár sem staðfest verður af ráðherra. Með þessu ákvæði er tryggt að í lögum sé með skýrum hætti kveðið á um heimild Fiskistofu til innheimtu gjalda. Gjaldtaka samkvæmt 3.–5. og 7.–8. tölulið er óbreytt frá núgildandi lögum. Nýja gjaldtökuliði er að finna í 1., 2., 6., 9. og 11.–15. tölulið, en hér er helst um að ræða gjöld vegna úttekta, útgáfu leyfa og vottorða og gjöld vegna sérvinnslu upplýsinga og aðgangs að gagnasöfnum.

Einnig er nýmæli um heimild til gjaldtöku fyrir afladagbók en lagt er til að gjaldtaka fyrir afladagbækur einskorðist við afladagbækur á pappírsformi. Rafrænni afladagbók hefur verið dreift til notenda og hún verið uppfærð án endurgjalds og er ekki gert ráð fyrir að sú framkvæmd breytist á næstu árum.

Í 10. tölulið er kveðið á um gjaldtöku vegna veru eftirlitsmanna um borð í skipum en þessi gjaldtaka er ekki nýmæli. Hins vegar er gert ráð fyrir breytingu á þeirri gjaldtöku á þann hátt að útgerð greiði allan kostnað fyrir veru eftirlitsmanns um borð samkvæmt lögum um stjórn Fiskveiða, nr. 116/2006, frá og með öðrum degi í stað þess áttunda eða áttundu veiðiferð, samanber 9. gr. frumvarpsins.

Við samningu 1. gr. frumvarpsins var sérstaklega hugað að sjónarmiði um afmörkun á þeim kostnaðarliðum sem felldir eru undir gjaldtökuheimildir. Í ákvæðinu eru því þeir kostnaðarliðir, sem gjaldi er ætlað að standa undir, skýrt tilgreindir. Þá er einnig ákvæði í frumvarpinu þar sem lagt er til að vísað sé til gjaldskrár Fiskistofu varðandi fjárhæðir gjalda í stað þess að þær séu tilgreindar í einstökum lagaákvæðum eins og gert er í núgildandi lögum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu þess og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.