144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

422. mál
[23:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er mjög forvitnilegt út frá þeim annmörkum eða hnökrum sem framkvæmdarvaldið finnur fyrir á ýmsum stöðum, bæði hjá sveitarfélögum og hjá ríkinu, að kortleggja vel þau mál sem koma á borð úrskurðarnefndar.

Ég hef sjálf velt því fyrir mér að hve miklu leyti hægt sé að nota þá tölfræði sem safna má saman á vegum úrskurðarnefndarinnar til að bæta framkvæmdina og löggjöfina með því að átta sig á því hvar þessar hindranir eru algengastar. Auðvitað mundi maður vilja sjá að innleiðing Árósasamningsins leiddi það af sér að gagnsæi við ákvarðanatöku yrði þvert á móti til þess að kærum mundi fækka. Það snerist ekki um að fleiri mundu kæra heldur vissu fleiri um ferlið, skildu það og gerðu sér grein fyrir því, hefðu aðkomu að því alla leið þannig að kærum mundi í raun fækka í fyllingu tímans þegar almenningur hefði áttað sig á sóknarfærunum sem samningurinn felur í sér.

En ég vil fyrst og fremst í síðara andsvari mínu brýna ráðherrann í því að nýta þau góðu gögn sem koma frá úrskurðarnefndinni sem tölfræðilegan grunn til að kortleggja hnökra við framkvæmd skipulagslaga því að þau eru ekki gömul og eru í raun í stöðugri endurskoðun. Það er gríðarlega mikilvægt vegna þess að þarna eru miklar valdheimildir og ákveðinn núningur milli skipulagsvalds sveitarfélaga og þeirrar miðlægu löggjafar sem kemur héðan. Framkvæmdarvaldið verður að halda utan um eftirlitið og því um líkt og nýta það í einhvers konar skýrslu eða yfirferð til að bæta löggjöfina til hagsbóta fyrir almenning í landinu.